28.11.2007 | 09:02
Engu líkt
Það er margt og mikið að gerast í kirkjunni minni Árbæjarkirkju þessa dagana. Kirkjudagurinn er framundan og þá er alltaf mikil hátíð. Kirkjudagurinn er alltaf fyrsta sunnudag í aðventu sem er 2. desember á þessu herrans ári 2007. Það er ekki aðeins við prestarnir sem erum önnum kafnir við undirbúning þessa dags. Það eru nefnilega öflugar konur í söfnuðinum sem eru með líknarsjóðshappdrætti á kirkjudeginum. Þær hafa lagt að baki ófáar stundir til undirbúnings dagsins. Þær hafa farið á milli fyrirtækja og fengið vörur og það ekkert smávægilegt. Vil ég nota tækifærið og þakka öllum þeim fyrirtækjum sem hafa látið vörur að hendi rakna til þessa góða málefnis sem líknarsjóðurinn stendur fyrir í söfnuðinum. Hver sú kirkja sem eiga konur sem þessar að vinkonum er rík kirkja. Árbæjarkirkja er rík af sjálfboðaliðum sem eru tilbúin að gefa af dýrmætum tíma sínum þannig að meðborgarar geti átt gleðirík jól. Vonum við svo sannarlega til þess að sem flestir sjái sér fært að koma á sunnudaginn 2. desember í fjölskylduguðsþjónustu kl. 11.00 eða hátíðarguðsþjónustu kl.14.00 og eftir kaupa miða í skyndihappdrætti líknarsjóðsins og kaffihlaðborð kvenfélagsins. Láttu gott af þér leiða og líttu við!
Athugasemdir
Þetta er svo yndislegur tími og það er svo gaman þegar allt er á fullu í kirkjunni og mikið um að vera. Þetta verður góður dagur hjá ykkur og vona ég að sem flestir mæta. Hjá okkur í Þorlákskirkju verður aðventusamkoma kl. 16:00 og munu krakkarnir úr tónlistarskólanum og lúðrasveitinni spila. Þetta er alltaf mikil fjölskylduhátíð. Verst er ekki að geta verið á báðum stöðum! Kærar kveðjur í gömlu kirkjuna mína.
Sigurlaug B. Gröndal, 28.11.2007 kl. 10:48
Já Sigurlaug ég get tekið undir það að þetta er yndislegur tími. Það er svo margt sem ég vildi sjá og upplifa en er ekki hægt vegna þess að allt þetta er á svo knöppum tíma. Tónleikar og aðrar uppákomur sem eru í boði fram að jólum. Það er jafnvel hægt að tala um valkvíða Óska ykkur velfarnaðar í safnaðarstarfi ykkar í Þorlákshhöfn!
Þór Hauksson, 28.11.2007 kl. 11:18
Takk fyrir góðar kveðjur.
Sigurlaug B. Gröndal, 28.11.2007 kl. 13:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.