Færsluflokkur: Dægurmál

Engu líkt

Árbæjarkirkja í vetrarbúningiÞað er margt og mikið að gerast í kirkjunni minni Árbæjarkirkju þessa dagana.  Kirkjudagurinn er framundan og þá er alltaf mikil hátíð.  Kirkjudagurinn er alltaf fyrsta sunnudag í aðventu sem er 2. desember á þessu herrans ári 2007.  Það er ekki aðeins við prestarnir sem erum önnum kafnir við undirbúning þessa dags.   Það eru nefnilega öflugar konur í söfnuðinum sem eru með líknarsjóðshappdrætti á kirkjudeginum.  Þær hafa lagt að baki ófáar stundir til undirbúnings dagsins.  Þær hafa farið á milli fyrirtækja og fengið vörur og það ekkert smávægilegt.  Vil ég nota tækifærið og þakka öllum þeim fyrirtækjum sem hafa látið vörur að hendi rakna til þessa góða málefnis sem líknarsjóðurinn stendur fyrir í söfnuðinum.  Hver sú kirkja sem eiga konur sem þessar að vinkonum er rík kirkja.   Árbæjarkirkja er rík af sjálfboðaliðum sem eru tilbúin að gefa af dýrmætum tíma sínum þannig að meðborgarar geti átt gleðirík jól.  Vonum við svo sannarlega til þess að sem flestir sjái sér fært að koma á sunnudaginn 2. desember í fjölskylduguðsþjónustu kl. 11.00 eða hátíðarguðsþjónustu kl.14.00 og eftir kaupa miða í skyndihappdrætti líknarsjóðsins og kaffihlaðborð kvenfélagsins.   Láttu gott af þér leiða og líttu við!


Femin hvað?

Um daginn birtist frétt sem fór ekki hátt að kynjahlutfall útskrifaðra úr háskólum landsins hallar verulega á karlkynið.   Ég hef ekki prósentuhlutfallið alveg á takteinunum en mig minnir að það sé 30% karlar og 70% konur.  Ekki annað að heyra að "allir" séu ánægðir með þennan árangur kvenna.   Til hamingju konur!  Óneitanlega setur að manni ugg hvað karlana varðar.  Víst má segja að ef að hlutfallið hafi verið öfugt hefði samfélagið farið á hvolf.  Fjöldi rannsókna hafa líka sýnt að drengjum liður ver í skóla heldur en stúlkum og þannig mætti lengi halda.  Það var birt lærð grein um þetta en umræðan engin.   Hvers vegna?   Getur það verið að engin hafi þorað því af ótta við viðbrögð.  Hafa ekki rétta skoðun.  Það er alveg með eindæmum að þegar eitthvað kemur fram sem sýnir betri árangur kvenna á móti árangri karla skuli aldrei heyrast hljóð í "femínista" geiranum.   Eins og sá má hef ég sett femínista í gæsalappir.  Einfaldlega vegna þess að mér líkar ekki þessi málflutningur þeirra sem gefa sig fyrir að vera í forsvari "femínista"  Ég sjálfur tel mig vera frjálslyndan mann og vil veg kvenna og karla sem mestan eins og ég á kyn til sem langafabarn sr. Ólafs Ólafssonar fríkirkjuprests sem upp úr aldamótum 1900 og frameftir barðist fyrir kvenréttindum.    Femínismi í mínum huga er að gæta að velferð, rétti og framgangi bæði karla og kvenna en ekki bara kvenna.    Hætta þessu endalausa væli um hversu margar mínútur til eða frá hvort kynið fái meiri athygli í fjölmiðlum þegar þörf er á að gæta að velferð drengja og stúlkna í skólum þessa lands.   Að við getum skilað af okkur einstaklingum stúlkum sem og strákum vel menntuðum einstaklingum í sem jafnasta hlutfalli.  Þannig að hlutfallið verði sem jafnast hjá þeim sem útskrifast úr háskóla og að ekki sé talað um iðnskólum þessa lands sem því miður hallar verulega á kvenfólkið.  Í stað þess að þegja hlutina í hel þegar hallar á drengina ættum við öll femínistar þessa lands og þótt víða væri leitað að leggja allt sem við eigum til að rétta af þann halla sem raunverulega er að finna í okkar samfélagi.


Fátækt hugans í sérsniðnum fötum helstu hönnuða þessa heims.

 

Að finna til öryggis ætti að vera skilgetið afkvæmi þessa að við skulum sannfæra okkur um að við  stöndum framalega á flestum veraldlegum sviðum mannlegs lífs í samanburði þjóða.  En það er ekki svo og eflaust hefur það aldrei verið fullkomlega og mun ekki verða fullkomlega svo að hægt er að finna til öryggis.    Þrátt fyrir allt okkar brölt í gegnum tíðina að berjast úr fátækt til ríkisdæmis er eins og eitthvað vantar og við leitum í dyrum og dyngjum af þessu einhverju sem við kunnum ekki að nefna eða þorum því ekki vegna þess að við kunnum að óttast það sem við verðum áskynja.    Við viljum ekki leggja frá okkur “byrgðar” þær sem við höfum hlaðið á okkur af ótta við að tapa því sem við höfum.

Samfélag nútímans er hlaðið kaunum öryggisleysis, vansældar og krepptum hnefa eignaréttarins fram yfir náungann og þarfir hans og er ég þá ekki með neitt svartsýnishjal – staðreyndirnar tala sínu máli.  Einmanaleiki, fíkniefnanotkun, misnotkun hverskonar sem sífellt leitar niður á við í aldri, vonleysi og uppgjöf er bróðir og systir alls hins besta eins og möguleiki til menntunar, möguleiki til þess að leyfa draumum sínum að rætast sem áður fengu ekki svigrúm til vegna fátæktar í samfélagi okkar.  Allt þetta sem var – er til í dag en í annarri mynd sem fæst helst ekki framkölluð í huga.    Þessi önnur mynd er fátækt hugans íklædd sérsniðnum fötum helstu hönnuða þessa heims.

 

Lífið í dag er safn “digital” mynda þar sem ekkert er auðveldara en að eyða  ef myndin passar ekki inn í þann veruleika sem við viljum helst lifa í og sjá fyrir okkur.   Framköllum á pappír drauma okkar.    Við sjáum og heyrum af háum hýsum lúxusíbúða svo hátt uppi að ekki þarf að horfa á þá sem neðar eru og lifa á degi hverjum við það að horfa inn á nágrannann.   Heldur er það hafið og blámi fjalla sem þeim er skammtað sem lifa praktuglega vellystingum og er það gott.   Hver vill ekki hafa hafið og skipin fyrir augum sem “móð” ösla sjóinn með nýjasta nýtt frá heiminum handan fjallanna svo að við sem lifum á mörkum þess byggilega mættum verða ánægð-ánægðari í dag en í gær og þar er engin endir á og hvað þá upphaf sem engin ómakar sig við að gæta að hver var.


Út með tunguna

Mér var hugsað til vinar eins bróður míns.  Bróðir minn sagði sem svo að það þýddi ekkert að segja honum brandara.  Er hann sneyddur kímni.  Nei, það er ekki það heldur frekar hann fattar brandarann daginn eftir. 

 Ég stóð sjálfan mig að þessu í dag á degi íslenskrar tungu.  Sá frétt um að tíu íslendingar höfðu verið fengnir til að reka út úr tunguna.  Ég hugsaði til hvers-hvaða athyglissýki er þetta. 

Tók mig lungann af deginum að fatta.  Auðvitað - það er dagur íslenskrar tungu.  HA, ha, ha. 

Tók mig til og rak tunguna úr mér framan í son minn þegar hann kom heim rétt áðan.  Hann klagaði í mömmu sína sem sagði honum með þunga að pabbi hans hafi verið að fatta brandara sem var í blöðunum í morgun.  Hann rak úr sér tunguna í tilefni að því að það væri dagur íslenskrar tungu!  Er ekki dásamlegt hvað íslenskan er gegnsæ-þegar maður fattar það!


Vér mótmælum öll

Var rétt í þessu að koma af fundi.  Fundurinn átti sér reyndar stað 1851 (Þjóðfundurinn) ég hef verið á honum áður fyrir sem áheyrnarfulltrúi og fannst lítið til koma.  Ég man að þá hugsaði ég og skrifaði á prófi.  "Hvað skiptir mig máli einhver rykfallinn fundur átjánhundruð og súrkál" og ég þóttist góður.    Ég var rétt í þessu að endurnýja kynni mín af þessum fundi.  Sonur minn 13 ára er að fara í próf á morgun og bað mig að fara í smá ferð með sér um íslandssöguna.  Þegar "heim" var komið og ég með snert af þjóðarrembingi!  

Einhver segði að það væri merki um þroska hjá mér að standa sjálfan mig að því að komast að því að þessi fundur skipti miklu máli fyrir þroska þjóðar og vitundar.   Því sem næst grátklökkur greip ég í nokkura daga gamalt dagblað og brotlenti "med de samme" Mikið ofboðslega er ég fegin að Jón forseti átti ekki leið um Kópavoginn og Garðabæinn um helgina. Í stað þess að vera heima, lesa og hugsa um það sem hefur gert okkur að þjóð skulum við hlaupa til ef einhver erlend verslunarkeðja lætur svo litið að auglýsa 20% afslátt af...

Þýðir lítið að segja frekar en á fundinum áðurnefnda "Vér mótmælum allir" eða eins og nútíminn segir-"Vér mótmælum öll"

er ekki nóg komið!


BlogGuð

Ferð fermingarbarna í 8.MG, 8.RH og 8.ÁB  12. nóvember 2007 008Ég hef oftar en ekki komið sjálfum mér á óvart þar sem ég er í þungum þönkum um hvernig Jesú bæri sig að við boðskapinn ef hann væri meðal okkar í dag. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að hann væri líklega meira en annað mikilvirkur bloggari. Jesú var bloggari sins tíma. Blogg nútímans er það að koma boðskap, hugðarefnum á framfæri. Koma því til skila sem hverfist um í huga. Það sem skilur á milli þá og í dag er það að orðið eða orðin standa stutt í huga.  Sum þeirra fara svo hratt hjá að aðeins heyrist ómur þeirra eina augnabliksstund er þau falla hjá og önnur koma og fara. Orð geta byggt upp og orð geta rifið niður-það er ekki nýtt-þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það verða. Orð verða að segjast-þögnin skilur ekkert eftir sig annað en slóða þess sem ekki var sagt órekjandi með öllu.

Við lifum á timum þar sem hið talaða orð hefur aldrei verið fyrirferðameira, háværa og ef eitthvað minna vægi. Það kemur úr öllum áttum og rásum daginn inn og daginn út. Það er engin óhult/ur fyrir þeim. Oftar en ekki höfum við lítið sem ekkert um það að segja hvað “gusast” yfir okkur. Afleiðing þessa verður auðvitað sú að víð myndum ónæmi fyrir orðum og þeim boðskap sem þau oftar en ekki fela í sér. Boðskapur orða er auðvitað misjöfn. Tilgangur orða getur verið sá að byggja upp og rífa niður. Orðið í sjálfu sér hefur ekkert um það að segja í hvaða samhengi það er sett fram og hvaða tilgangi það þjónar heldur er það sá eða sú sem notar þau sem ber ábyrgðina. Orð eru sögð til að ná huga einhvers í alvöru eða léttleika stundarinnar.  Til þess að svo megi verða er bloggið góður vettvangur fyrir hvern þann sem vill láta í sér heyra.  Jesú hefði því væntanlega setið fyrir framan tölvuna og bloggað um menn og málefni án þess að hlifa sjálfum sér eða öðrum og er það mikilvægur punktur.  Ef einhver ætlar ekki að hlífa öðrum verður sá eða sú hin sama að vera tilbúin að vera óvægin gagnvart sjálfum sér.


"Jólaaa hvað"

Ég átti leið um laugaveginn snemma í morgun í kalsa veðri og dumbungi.  Veðurenglarnir einhvern vegin farið vitlaust úr rúmi þessa dagana.  Þá birti yfir mér hið innra.  Ég sá nefnilega að byrjað er að undirbúa uppsetningu (ætla varla að þora að segja það en gerið það samt) jólaljósa.   Innan skamms byrjar samkór þeirra sem syngja um að það eigi ekki að tendra á þessum ljósum fyrr en í byrjun desember í byrjun aðventu og helst af öllu slökkva á þeim strax um áramótin.  Ég hef eflaust einhvern tíma sungið annan tenór í þessum kór.  Í dag hef ég skipt um kór- er í margradda kór sem finnst gott að lýsa upp skammdegið - afhverju ekki sem allra fyrst!  Ljósið hefur aldrei fælt mig frá! 

Nema ljósabekkir.


Bíða eftir strætó!

Ung kona kom í ákveðna verslun hér í borg og keypti fataskáp.  Afgreiðslumaðurinn sannfærði konuna um að það væri ekkert mál að segja hann saman.  Sæl og glöð fór hún heim með vöruna.  Næsta dag kemur hún aftur og hittir fyrir afgreiðslumanninn.  Hún segir honum frá því að ekki hafi gengið eins og hún ætlaði með skápinn.  Hún hafi samkvæmt leiðbeiningum sett hann saman.  Hvert skipti sem strætó keyrði hjá hrundi skápurinn.  Afgreiðslumaðurinn sagðist barasta koma eftir vinnu og leysa málið fyrir hana.  Um kvöldmatarleytið er hann mættur og tekur til við að skrúfa skápinn saman.    Þegar hann var búin að því biður hann konuna um vasljós vegna þess að hann ætlar að vera inni í skápnum þegar strætó keyrði hjá og sjá hvað veldur hruni skápsins.  Hann fær vasaljós og fer inn í skápinn.  Þar bíður hann nokkra stund þegar allt í einu hurðin á skápnum er fruntalega rifin upp.  Fyrir utan stóð eiginmaður konunnar rauður af bræði og öskrar á afgreiðslumanninn Hvað í ósköpunum hann væri að gera í skápnum!  Titrandi röddu, skelfingu lostinn sagði hann.  "Ég...ég... er að bíða eftir strætó!!Whistling 

Bara einn léttan í rigningunni!


"Er það eitthvað í sambandi við svarta dauða"

“Asa sótt” hvað er það? byrjaði sr. Bernharður Guðmundsson þáverandi skólastjóri Skálholtsskóla hvern dag á að spyrja þá fimm hópa fermingarbarna Árbæjarsafnaðar sem um árið sóttu heim staðinn í dagsnámskeið ásamt prestum sínum.    Þessi sena kom upp í hugan í síðustu viku þegar ég fór um eina 6 flugvelli á einni viku.   Ungmennin sem nokkru áður höfðu ruðsFíkniefnafræðsal 07. febrúar 2007 008t út úr rútunni og hlaupið við fót til kirkju þar sem samvera dagsins hófst hafa væntanlega velt fyrir sér hvaða gráhærði “forngripur” þetta væri sem ávarpaði þau í kyrrlátum rökkvuðum helgidómi Skálholtskirkju með þessum orðum hvað er “asa-sótt.”   Mér var litið yfir hópinn og á svipbrigðum þeirra mátti greina textann í laginu “þetta fullorðna fólk er svo skrítið...”   Kannski ekki góð byrjun í huga einhverra þeirra ungmenna sem þarna komu á stað sem sum hver höfðu aldrei komið til áður og vissu ekki hvers var að vænta.  Þá gerist það á miðvikudegi rétt þegar þriðji hópurinn af fimm var nýbúin að koma sér fyrir í virðulegri og hlýlegri kirkjunni.  Kirkjunni sem eins og í fjarlægð sveitarinnar vakir yfir henni langt að séð, að sr. Bernharður fær loks svar við spurningunni, “hvað er asa-sótt?”   Tekið tillit til sögu staðarins og mystiskri kyrrð kirkjunnar með steindum gluggum sínum, kyrrlátu kertaljósum og umfaðmandi sveitinni kann svarið að hafa verið “sótt” til fortíðar.  Slánalegur gaur með úfið dökkt hár rétti upp hönd um leið og hann sagði í “dauðans alvöru”  - “er það ekki eitthvað í sambandi við svarta dauða?”  Það verður sagt Bernharði til hróss  að hann hélt andlitinu.  Hann leiddi ungmennin í sannleikann um að þessi “sótt” ætti ekki frekar uppruna sinn að rekja til myrkra miðalda heldur sótt sem herjaði á í dag.  Það er engin óhult/ur fyrir þeirri sótt.   Hvort það var orðum sr. Bernharðs að þakka eða óútskýranlegri “flauels” líkri helgi og kyrrð Skálholtsstaðar sem tók á móti “asa-sóttugum” ungmennum og prestum þeirra eina dagstund miðjan október mánaðar líkt og fyrir töfra færði okkur á “milli tveggja samsíða heima.”   Birta dagsins var römmuð inn með myrkri morgunsins og húmi kveldsins.  Ungmennin og prestarnir afklæddust einum mesta lesti nútímamanns tímaleysinu -“asa sóttinni.”   Þau voru um stund viðbót af langri og viðburðarríkri sögu Skálholtsstaðar og þjóðarinnar allrar.   Hlýddu á ástarsögu þá sem hvílt hefur í huga íslendinga um aldir. Ástarsögu Ragnheiðar “biskupsdóttur” og Daða Halldórssonar og örlög þau sem ást þeirra skóp þeim.   Þau hlustuðu því “asa-sóttinn” var farin í bæinn hafði fengið sér far með rútunni.   Þau voru kyrrlát eins og logi á kerti á altari.  Kæmi “asinn” til baka um kvöldið með rútunni?   Hugsaði ég þegar ég stóð úti á tröppum kirkjunnar og kyrrðin sótti að mér.   Þvílík auðlegð er kyrrðin annars.   Kyrrðin og þögnin er okkar auðlegð og af henni er nóg.  “Skyldi Ragnheiður hafa svarið rangan eið?” spurði stúlka vinkonu sína þar sem þær klufu lyngt sveitarloftið á leið sinni í síðdegiskaffi.  Fyrr um daginn fengu þau meðal annars að dveljast ein – allveg alein í kirkjunni með sínar bænir - bara þau og Guð almáttugur.   Flest hafa þau hugsað og ein spurði -“treystið þið okkur okkur að vera allveg alein í kirkjunni?”  Efasemdar hljómur fyllti röddina.  Einhver velti fyrir sér hvort komið hefði verið fyrir alsjándi rafeindar auga, það gæti ekki verið að þeim væri treyst.  Eina alsjáandi augað voru augu Guðs sem hvíldu á þessum ungmennum sem afklæðst höfðu “asa-sóttinni” eina dagstund - sem tengist ekki á nokkurn hátt svarta dauða.   

Snyrtivörur karla

Var að koma heim eftir ferð til Svíðþjóðar og Ungverjaland.  Við hjónin dvöldumst nokkra daga í Debrecen þar sem elsti sonur okkar stundar læknanám.  Debrecen er borg sem kemur skemmtilega á óvart.  Það var nú ekki það sem ég ætlaði að tala um.  Ég eins og yfirskriftin segir til um ætla aðeins að ræða um snyrtivörur karla.

Sú var tíðin að framleiðendur snyrtivara beindu nær einvörðungu sjónum sínum að kvenþjóðinni.  Ég komst að því í sumar að það hefur nú aldeilis breyst.  Það sem meira að það hefur algjörlega farið framhjá mér og engin haft fyrir því að segja mér frá því fyrr en í sumar sem leið.  Það kom upp í hugan minn þegar ég var staddur núna um daginn í Fríhöfninni í flugstöð Leibba.   Fyrr í sumar fór fjölskyldan sem telur mig konu mína foreldra hennar og tvo syni sem eftir eru á heimilinu sá eldir 16 ára og sá yngri 13 ára.  Þar sem ég stend fyrir framan hilluna sem geymir rakspírann kemur sá eldri (miðstrákurinn) og segir við mig "hvort ég ætli bara að kaupa rakspíra."  Einhvers annars hugar segi ég "jú kannski raksápu og Gillette rakblöð og svitalyktareyði.  Þar með var upp talið hjá mér hvað snyrtivörur karla áhrærir. 

"Komdu" sagði hann.  "Sjáðu hérna."  Áður en ég vissi stóð ég ásamt mínum 16 ára strák og horfði væntanlega tómum augum á marga hillumetra af snyrttúpum og flöskum og spurði eins og fáviti - "já hvað."  "Afhverju færðu þér ekki svona" sagði stráksi og rétti mér kremtúpu.  "Hvað er þetta."  "Þetta er fyrir augun" sagði strákur.  "Á maður að setja þetta á augun."  "Nei auðvitað ekki, þú átt að setja þetta undir augun."  "Til  hvers" spurði ég og las á merkimiða túpunnar.  Strákur var ekki lengi að svara, "til að fríska upp á augun og kringum þau."  Áður en ég áttaði mig fullkomlega var ég komin í röð fyrir aftan aðra snyrtivörukaupendur (konur og einstaka karl að gleðja sína heittelskuðu) með fullt fangið af snyrtivörum fyrir karla.  Ég er enn ekki búin að átta mig á nokkrum mánuðum seinna hvaða hlutverki þau gegna.  Ég trúi því allveg að þau hljóta að gera mig fallegri en ég er.  Útlitið má alltaf bæta og það vita snyrtivöruframleiðendur.  Skrítið hvað þeir hafa verið lengi að fatta það eða er það ég sem hef ekki enn fattað hlutina eins og þeir eru.  Það er allavega álit sonar míns þegar ég borgaði fyrir vörurnar og sagði sem svo að þetta væri ekki handa mér.  Afgreiðslumanninum var slétt sama.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband